top of page

Þakklæti


Eitt af því sem veldur fólki oft sárindum og gremju er vanþakklæti. Vanþakklæti er hluti af okkar lífi og því miður virkar það oft eins og illgresi. Látum ekki illgresið breiðast út! Látum það ekki á okkur fá ef við verðum fyrir því, og búmst ekki við þakklæti. Af hverju?

Eitt sinn læknaði Kistur 10 líkþráa menn, en hve margir þeirra gerðu sér það ómak að þakka honum? Aðeins einn!. Þegar Jesús sagði; “Hvar eru þeir nú?” voru þeir allir víðs fjarri, horfnir án þess að sýna minnsta þakklætisvott, nema þessi eini sem sneri til baka og lofaði Guð “hárri raustu”.  Lúk 17:12-15. 

Hvers vegna skyldum við, ég og þú, vænta meira þakklætis en Kristur hlaut, þótt við gerum einhverjum smá greiða? Búumst ekki við þakklæti, látum það frekar koma okkur þægilega á óvart ef við verðum fyrir því. Þakklæti er eins og rós. Það verður að hlúa að því, hirða það, vökva og rækta – elska það og vernda. Og við berum ábyrgð! Til þess að ala upp fyrirmyndarbörn, þá þurfum við að sjálf að vera til fyrirmyndar. Til þess að ala upp þakklát börn, verðum við sjálf að vera þakklát. Minnumst þess að “smápottar” hafa líka eyru og aðgætum hvað við tölum.

Þakklæti er áunnin dyggð. Gleymum ekki að þakka Jesú fyrir það sem hann gerði fyrir okkur. Hann tók og bar krossinn þunga og dó fyrir syndir okkar. Hann er miskunnsamur og náðugur. Hann gaf sitt líf fyrir okkur! Fyrir þig og mig. Er hægt að gefa meira – meira en lífið sjálft? Er hægt að fara fram á meira?

Okkur hættir oft á tíðum til að hugsa sífellt um það sem okkur vantar. Mörg okkar berumst með þessum óstöðvandi straumi lífsgæðakapphlaupsins. Föst í neti græðgi og athyglissýki, sem einkennist af hisminu einu saman. Græðgi og ágirnd í dauða hluti. Þessi hneigð okkar að hugsa sjaldan um það sem við eigum, en ætíð um það sem okkur vantar, er einn mesti harmleikur lífsins, ásamt brostnu siðferðisþreki. Í allri þessari framþróun í heiminum hafa orðið til merkar nýungar og miklar auðlindir, en því miður hefur lítil framþróun átt sér stað í siðferðisvitund og siðferðisþreki fólks hvarvetna í heiminum. Það sést best á þróun íslenskrar menningar þar sem “strippbúllur”, mansal, vændi, eiturlyf og ofbeldi breiðist út líkt og illgresi í görðum. Þetta er orðið daglegt brauð, því miður. Við þurfum að biðja gegn þessu og berjast á móti eins og við verður komið.

Þetta hefur sennilega valdið meiri eymd en allir sjúkdómar og styrjaldir veraldarsögunnar. Hversu margir líða ekki þjáningar úti í hinum stóra heimi vegna græðgi, ágirndar og valda einstaklinga og ríkja? Þetta er ein af syndunum. Græðgi. Ágirnd. Verum nægjusöm sagði Drottinn.

Finndu sjálfa/sjálfan þig. Vertu þú sjálf, eða sjálfur. Komdu til dyranna eins og þú ert klædd/ur hvað sem fyrir kemur. Hvar er betra en að gera það hér, í húsi Guðs? Hann fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur þér eins og þú ert, með öllum þínum kostum og göllum. Enginn er fullkominn – nema Guð.

Enginn á eins bágt og sá sem þráir að vera einhver annar (eitthvað annað) en hann er sjálfur. Þetta á bæði við um andlegt og líkamlegt atgervi. Vill einhver falska peninga? Hvað með þig? Vertu sannur og trúr – sönn og trú – þá farnast þér vel. Leiktu á þitt eigið hljóðfæri í hljómkviðu lífsins. Sumir spila falska tóna á lífshörpu sína, aðrir spila fagra og rétta tóna.

Ég bið þig lesandi góður. Láttu ekki biturð, beiskju né reiði yfirbuga þig. Við meigum ekki láta þess konar hluti ná tökum á okkur og éta okkur innan frá. Reiðin er eins og myrkur sem slekkur ljós skynseminnar. Kærleikurinn er neistinn, það afl sem kveikir ljós skynseminnar. Gangið á Guðs vegi og megi blessun Guðs umlykja líf þitt á allan hátt.

0 comments

Comments


bottom of page