Ó, að þú sviptir himninum sundur og stigir niður svo að fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu eins og þegar eldur kveikir í hrísi eða eldur kemur vatni til að vella,til að gera fjandmönnum nafn þitt kunnugt. Þjóðirnar munu skjálfa fyrir augliti þínu (Jesaja 64:1)
Guð hengdi stjörnum prýddan himin yfir okkur líkt og stórt fortjald í himingeyminn (Jes 40:22). Jesaja er að segja að Guð geti tekið þetta fortjald líkt og teppi í sína voldugu hönd, svo að segja, rifið það í sundur og stigið niður í okkar heim með krafti að ofan. „Þegar.....“ (64:3). Guð okkar kemur stöðugt á óvart. Við skulum aldrei sætta okkur við óbreytt ástand eða kyrrstöðu!
Íslenska Kristskirkjan stendur á tímamótum. Síðasti pistill sem forveri minn í starfi ritaði, fjallaði einmitt um þær breytingar sem væru í vændum í kirkjunni. Hann, Friðrik Schram, væri að láta af embætti og annar að taka við. Það er sá sem hér situr og heldur á penna – eða öllu heldur slær með frjálslegum fingrum á takka tölvunnar.
Ég var vígður þann 31.ágúst sl. en þann dag hófst gos í Holuhrauni, rétt norður af Bárðarbungu í Vatnajökli, af miklum krafti og þegar þetta er ritað er enn ekkert lát á gosinu. Þennan dag var einnig aftaka veður, stormur með tilheyrandi slagveðri sem buldi á þaki kirkjunnar þennan eftirminnilega dag. Yfir 40 m/s voru á Kjalarnesi þegar ég var á leið í kirkjuna til þess að vera vígður sem prestur safnaðarins. Það skyldi þó ekki vera að Guð hafi verið að tala þennan dag, því í orðsins fyllstu merkingu „kom eldur vatni til að vella og fjöll nötruðu“ í þessu gosi, og jörðin rifin upp á þann hátt að enginn mennskur maður fengi við ráðið. Og þessi atburður hefur svo sannarlega komið þjóðum til að skjálfa (ekki vígslan mín, heldur gosið). Leit t.d. út fyrir að flugumferð á alþjóðavísu raskaðist líkt og í gosinu í Eyjafjallajökli, og höfðu margar þjóðir áhyggjur af því samkvæmt heimsfréttunum.
Ég fór að velta því fyrir mér hvort þetta væri það sem koma skyldi – að Guð léti rigna eldi og brennisteini yfir kirkjuna vegna inngöngu minnar í þetta ábyrgðarmikla hlutverk. Ég henti gaman að því við kirkjugesti hvort Guð vildi segja okkur eitthvað á þessum degi varðandi ráðningu mína – að þetta hefði ekki verið viturleg ráðstöfun safnaðarráðsins.
Við vitum að í gegnum aldirnar hefur Guð gert stórkostleg „tákn“ og „undur“. Því ekki núna! Gæti Guð hugsanlega verið að minna okkur á að vænta vakningar innan kirkjunnar. Þá er ég ekki eingöngu að tala um þessa kirkju, heldur kirkju Krists í sinni víðustu mynd. Jesús er höfundur og fullkomnari þeirrar áætlunar og þess vegna er sigur kirkjunnar gagnvart öllu mótlæti og ranglæti vís.
Við vitum að vakning er gjöf frá himninum. Við getum ekki búið hana til – Guð sendir hana niður! Við sem viljum tilheyra Kristi verðum að eiga þessa þrá í hjarta eftir nærveru Jesú. Við þurfum að biðja Hann um kirkjulega vakningu – þá biðjum við með tilvísun í Ritninguna fyrir kirkjunni á alheimsvísu. Eins og segir í Efes 6:18 „Gerið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið þannig árvökul og stöðug í bæn fyrir öllum heilögum.“ Við þurfum að hafa þrá og löngun eftir elsku Guðs, líkt og Jesaja er hann segir: „Líttu niður frá himni og horfðu frá þínum heilaga dýrlega bústað. Hvar er ákafi þinn og afl, meðaumkun hjarta þíns og miskunn? Vertu mér ekki fjarri.“ Jes 63:15. Jesaja gæti verið að segja eitthvað á þessa leið: Faðir, þitt volduga hjarta slær af svo mikilli ástríðu fyrir okkur. En þú heldur aftur af þér. Við þörfnumst meira af þér! Við getum, og eigum, að biðja fyrir úthellingu kærleika Guðs yfir okkur.
Við skulum minnast þess að áhrifarík bæn er ekki að fara yfir tékklista, heldur er það bænastund eins og Andinn vill leiða okkur m.t.t. orðsins, um þá hluti sem hann leggur okkur á hjarta. Bænin snýst aldrei um það að „gera“ hluti – vinna verk fyrir Guð, heldur um það vakningaverk sem Guð vill framkvæma í okkur, og í gegnum okkur, þannig að það snerti við öðrum og hrífi með sér.
Andleg vakning býr til eftirvæntingu í hjarta og huga kristinna. Andleg vakning veitir tilfinningalega upplyftingu og endurnýjun hjá þeim sem hana upplifa. Þegar við tölum um andlega vakningu, skulum við hafa þetta Biblíuvers í huga: „ ... og lýður minn, sá er við mig er kenndur, auðmýkir sig, og þeir biðja og leita auglitis míns og snúa sér frá sínum vondu vegum, þá vil ég heyra þá frá himnum, fyrigefa þeim syndir þeirra og græða upp land þeirra.“ 2 Kron 7:14.
Þvílíkt fyrirheit! Það eru um 7 þúsund fyrirheit í Biblíunni og þau eru eins sönn og raunveruleg eins og stóllinn sem þú situr á. Það er engin formúla fyrir endurvakningu, því það er ekkert slíkt til, nema það að hlýða meginreglum Guðs í Biblíunni – t.d. þessu versi sem ég var að vitna í. Þar koma fram ákveðnar hagnýtar og gagnlegar ábendingar til okkar, til að fá okkur til að byrja í bæn fyrir hreinleika, fyrir kirkjunni, og fyrir árangursríku trúboði. Lykilatriðin eru að við játum syndir okkar og biðjum eins og andinn leiðir okkur samkvæmt skipunum Ritningarinnar.
Það eru þrjú skilyrði til þess að andleg vakning geti átt sér stað. Þau eru auðmýkt, bæn og iðrun.
Fyrsta skilyrðið sem kemur fram í þessu versi er auðmýkt. Við getum ekki nálgast Guð með mannlegu stolti. Guð er sá hæsti! Guð býr í eilífðinni, hann er eilífur og allt um kring. Nafn hans er heilagt. Guð dvelur á meðal þeirra sem auðmjúkir eru, til þess að lífga þá við (Jes 57:15). Það er í gegnum veikan, auðmjúkan, brotinn anda sem styrkur Guðs er opinberaður.
Annað skilyrði fyrir andlegri vakningu er bæn. Lítum nánar á orðið „bæn“ og „leita“ í versinu. Orðið sem er þýtt sem bæn merkir „að miðla málum (intercede). Orðið „leita“ merkir að leita í bæn. Að miðla málum er að grípa inn í, skerast í leikinn milli tveggja deiluaðila til að sætta ágreining. Við eigum semsagt að miðla málum í bæn fyrir þá einstaklinga sem þurfa að ná sáttum við Guð. Þetta er eitt af megin hlutverki samfélagsins sem nefnist kirkja.
Þriðja skilyrðið er iðrun. Iðrun merkir „að snúa við“, fara í andstæða átt frá þeirri þeið sem við erum á – frá því sem við erum að gera, ef það er rangt. Jesaja segir að dyggðir (réttlæti) okkar sé eins og saurguð klæði (Jes 64:5). Við getum ekki komið inn í nærveru Guðs, sem ber nafnið heilagur, í okkar eigin réttsýni og ráðvendni. Ósvikinn viðsnúningur frá synd – iðrun – er nauðsyn ef við ætlum að nálgast Guð eða ganga inn til hans. Kirkjan verður sjálf að vera auðmjúk.
Kirkjan verður að miðla málum í bæn fyrir þá sem þurfa að sættast við Guð. Kirkjan þarf að iðrast, snúa við frá öllu ranglæti og siðleysi. Við eigum líka að biðja fyrir frelsun, öllu félagslegu ójafnræði og böli sem er að finna í þjóðfélagi okkar. Og við ættum einnig að biðja fyrir leiðtogum okkar. Umbreytandi andleg vakning mun þá koma!
Comentarios