top of page

Aðeins um þrautseigju.

Þrautseigja er mikilvæg til þess að endurnýja kirkjuna. Hún er líka mikilvæg til þess að halda út þegar við göngum í gegnum öldugang og brotsjó lífsins, þegar gefur á bátinn. Þrautseigja er staðfest yfirlýsing um von!


Í fyrsta lagi er hún megin aðferðin til þess að standa gegn djöflinum, eða veita honum viðnám. Árás djöfulsins á Pál postula var vægðarlaus og lamandi. Við skulum líta aðeins á eina skírskotun Páls varðandi þetta tiltekna málefni."Vér viljum ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þrenging þá, sem vér urðum fyrir í Asíu. Vér vorum aðþrengdir langt um megn fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið. Já, oss sýndist sjálfum, að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm. Því að oss átti að lærast það að treysta ekki sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu." 2 Kor 1:8-9.


Við gleymum því stundum að við erum kölluð til andlegrar baráttu og ein helsta hernaðaráætlunin til þess að sigra andlegt stríð er þrautseigja.

"Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt. Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins, … " Efes 6:13-14.


Það er til fjöldinn allur af aðferðum sem við notum til þess að þrauka, en á endanum er það þrautseigjan sem er hvað varanlegust þegar upp er staðið. Það segir frá konu einni, Loewen að nafni, en hún varð ætíð veik á laugardagskvöldum, gat lítið sofið og hvílst yfir nóttina, sem gerði það að verkum að hún vaknaði alltaf þreytt á sunnudagsmorgnum. Þetta ástand kom í veg fyrir að hún gat farið á fætur og sótt reglulegar bænasamkomur á þessum tíma í kirkjunni. Eitt laugardagskvöldið sagði hún við djöfulinn: Komdu bara og leggðu mig flata, gerðu mig veika ef þú vilt. En ég ætla engu að síður að mæta á bænastundina á morgun, hvað sem þú gerir. Og hún mætti daginn eftir og varð aldrei veik eftir þetta (sönn saga).

Satan vonast stöðugt til þess að fólk Guðs gefist upp – að aðstæður þess, verkefnin sem það stendur frammi fyrir dagsdaglega og mótlæti lífsins, muni verða of mikið fyrir það. Sigurvegarinn er ætíð sá sem gefst ekki upp! Ef við þraukum – höldum út, þá gefur djöfullinn eftir! Ef hann veit að við ætlum að þrauka þá mun hann gefa eftir fyrr eða síðar. Stundum er árangursríkasta vopnið, og það síðasta sem er haldbært, að segja einfaldlega: Fyrr skal ég dauð/ur liggja en að gefa þetta eftir! Eða nota orð Ritningarinnar: "Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði." Op 12:11


Það er þetta vopn þolgæðis og úthalds sem að lokum sannfærir djöfulinn um að hann verði að gefast upp. Allt of margt fólk (kristið fólk líka) gefst upp rétt áður en sigur vinnst.

Þó að orrustan í lífi mannsins sé stutt þegar litið er til framtíðar, þá er þetta ekki spurningin um sigurinn einan og sér, heldur hver það er sem fer með sigur af hólmi.

Guð hefur tryggt sigur yfir myrkrinu. Engu að síður hefur hann ákveðið að skilja okkur ekki eftir alein. Hann hefur falið okkur ábyrgð, gert okkur að erindrekum sínum. Hann hefur valið okkur sem samstarfsmenn sína til þess að halda merkjum hans á lofti og eyða ríki illsku og myrkurs.


Guð er að bíða eftir því að fólkið sitt rísi upp og geri sigurinn sem hann vann á krossinum að sínum. Ef við hrekjum ekki á bak aftur myrkraverk djöfulsins, þá verða þau ekki unnin. Ef við höstum ekki á djöfulinn, þá verður hann ekki á brott rekinn. Ef við leggjum ekki okkar af mörkum til þess að draga úr illskunni í heiminum, þá mun hún halda áfram að vaxa.

Andleg barátta er ekki bara smá brot af hinu kristna lífi – það er kristið líf í heild sinni. Að vera kristinn er að vera andlegur hermaður. Það er nokkuð víst að þú munt fá að reyna andstöðu og mótspyrnu frá óvininum þegar þú tekur skrefið til þess að endurnýja kirkjuna, af því að djöfullinn hatar endurnýjun. Þú verður að halda út, þú mátt ekki gefast upp og leiðast út í meðalmennsku.


“Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans.” 2 Tím 4:7-8

Þó hætta margir á leiðinni, gefast upp á köllun sinni og verkefnum. Erum við kynslóð uppgjafar? Margir gefast upp á leiðtogahlutverkinu, gefast upp á hjónabandinu, gefast upp á kirkjunni, hætta að biðja, erum auðsærð, kjarklítil og hættum – gefumst upp.

Margir byrja. Það er auðveldasti hlutinn. En færri ljúka þeirri vegferð sem þeir hófu! Engu að síður kallar Guð eftir þrautseigju í lífum okkar. Hann kallar okkur til þess að ljúka því verkefni sem hann hefur falið okkur. Hversu mikilvægt er það fyrir eilífa lífið, að ljúka hlaupinu? Hversu mikilvægt er að klára verkefnið - að endurnýja kirkjuna?


Paul Harvey 20. Október 1968, sviðsmyndin er ólympíuleikvangurinn í Mexíkó. Klukkan er sjö að kvöldi og verðlaunafhendingu síðust keppnisgreinarinnar er nýlokið. Áhorfendur, og keppendur sem voru enn heitir og í sæluvímu eftir verðlauanafhendinguna, voru í þann mund að taka saman föggur sínar og yfirgefa leikvanginn, þegar vallarþulurinn bað fólkið að sitja áfram í sætum sínum. Niður breiðstræti við leikvanginn barst sírenuvæl frá ökutækjum lögreglu. Þar sem fólkið á leikvanginum sat hátt uppi, gátu margir séð hvar lögreglumenn á mótorhjólum með blikkandi ljós umkringdu einhvern sem nálgaðist leikvanginn. Hver sem þetta var þá nálgaðist hann leikvanginn hægum skrefum. Allir sátu sem fastast og horfðu á síðasta kafla ólympíuleikanna eiga sér stað. Þegar lögreglufylgdin kom að leikvanginum tilkynnti opinber þulur leikanna að síðasti maraþonhlauparinn væri að koma inn á leikvanginn og nálgaðist marklínuna. Greina mátti ringulreið á meðal áhorfenda, sem virtust ekki átta sig á hvað var að gerast. Síðasti hlauparinn hafði komið í mark um klukkustund áður. Og verðlaunapeningarnir höfðu þegar verið afhentir. Hvað hafði tafið þennan mann?


En þegar mannfjöldinn sá þennan aðila koma út úr göngunum og inn á hlaupabrautina, þá sagði það alla söguna. John Stephen Akhwari, frá Tansaníu, kom alblóðugur og haltrandi inn á leikvanginn í sterkri birtu fljóðljósanna. Hann hafði hrasað illa snemma í hlaupinu. Hann hlaut bylmingshögg á höfuðið, slasaðist á hné og hafði troðist undir fótum meðhlaupara sinna, áður en hann gat komist aftur á fætur. Og þarna var hann, rúmlega 40 kílómetrum síðar, skjögrandi í átt að marklínunni. Viðbrögð áhorfenda létu ekki á sér standa og voru yfirþyrmandi. Þau voru næstum því ógnvekjandi. Þeir hvöttu Akhwari áfram síðustu metrana í hlaupinu, með dynjandi fagnaðarlátum, sem voru miklu meiri en sá hlaut er fyrstur kom í mark um klukkustund áður. Er Akhwari kom yfir marklínuna féll hann í fangið á læknum og sjúkraliðum, sem fluttu hann í skyndi á spítala. Daginn eftir, var Akhwari mættur í viðtal hjá íþróttafréttamönnum til að svara spurningum varðandi þetta stórkostlega afrek. Fyrsta spurningin var sú sem við öll hefðum spurt: “Hvers vegna hættirðu ekki eftir að hafa orðið fyrir svona alvarlegum meiðslum, þegar það var ljóst að þú hefðir enga mögluleka á því að vinna hlaupið?” John Stephen Akhwari svaraði: “Þjóð mín sendi mig ekki 11 þúsund mílur til að hefja hlaupið. Hún sendi mig 11 þúsund mílur til þess að ljúka því!”

0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page