top of page
  • Writer's pictureAdmin

Brothætt leirker

Eitt af því sem við tengjum gjarnan við trúarlíf okkar eru kraftaverk Guðs, dyggðir og góð verk. Þetta eru vissulega allt mikilvæg atriði í lífi kristins fólks í því samhengi að upphefja Guð og gera hann dýrðlegan. Það er talað um það í ritningunni að Guð vilji opinbera sig fyrir þeim sem eru "blinduð af djöflinum". Önnur merking gæti verið blinduð af heiminum. En hvað með þjáninguna? Hefur hún einhvern tilgang og merkingu? Geta þjáningar og erfiðleikar hins kristna manns gert Guð dýrðlegan á einhvern hátt og opnað augu "hinna blindu"? Lítum aðeins á það hvað postulinn Páll segir um þetta í hinu síðara bréfi sínu til Korintu.


En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss. Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki, ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki. Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum. Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru. Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið í yður. 2 Kor 4: 7-12.

Þetta er ákaflega innihaldsríkur og dýrmætur boðskapur frá Páli - verðmæt skilaboð um frelsisverk og hálpræði Jesú Krists, sem Guð hefur treyst okkur, veikburða og brothættu fólki fyrir. Hins vegar er áhersla Páls ekki á þetta "brothætta ílát", heldur er hann að beina sjónum okkar að ómetanlegu innihaldi kersins - krafti Guðs sem býr innra með okkur. Þrátt fyrir að við erum líkt og "brothætt leirker" þá notar Guð okkur til að breiða út fagnaðarerindið og Hann veitir okkur kraft til þess að framkvæma sitt verk. Þegar við gerum okkur grein fyrir því að mátturinn er hans en ekki okkar, þá kemur það í veg fyrir að við hrokumst upp. Þetta er hvatning til okkar að vera í daglegu sambandi við Hann, sem er uppspretta máttar okkar. Við þurfum að vera þessi götóttu leirker sem ljósið skín í gegnum, því við höfum þá ábyrgð, að fólk á að geta séð Guð í gegnum okkur. Þetta er mögnuð myndlíking!


Páll minnir okkur á að þegar við höldum að við séum að niðurlotum komin - komin á endastöð, þá er það ekki svo. Synd og þjáning er viðfangsefni okkar dauðlega, hverfula líkama, en Guð yfirgefur okkur aldrei. Vegna þess að Kristur sigraði dauðann, þá eigum við eilíft líf þegar við ákveðum að fylgja honum. Allt sem við eigum á hættu, niðurlægingu, ofsóknir, erfiðleika hvers konar og sjúkdóma, eru í raun miklvæg tækifæri fyrir Krist til að sýna fram á kraft sinn og nærveru í okkur - og í gegnum okkur. Við þurfum að spyrja okkur sjálf: Gæti ég höndlað þá þjáningu og mótlæti sem Páll varð fyrir, með sama hugarfari og hann gerði? Velgengis heilkennið (frama heilkennið) er mikill óvinur árangursríkrar þjónustu í Guðs ríkinu. Út frá efnislegum eða jarðneskum sjónarhóli þá bjó Páll ekki við mikið ríkidæmi eða velgengni. Og eins og hann, þurfum við að inna okkar þjónustu af hendi og leita eftir styrk Guðs til þess að geta sinnt þjónustu okkar. Þegar mótlæti og vonbrigði vofir yfir lífi þínu, og er við það að ræna þig sigrinum sem Kristur vann þér inn, þá skaltu minnast þess, að enginn getur eyðilagt eða afmáð það sem Guð hefur framkvæmt í gegnum þig. Til þess að geta brugðist rétt við prófraunum og þjáningum lífsins þá krefst það yfirnáttúrulegra krafta og styrks - styrks og máttar hins upprisna Krists. Þegar fólk sér trúaða einstaklinga sýna mikla þolinmæði, auðmýkt og þrautseigju með glaðlegu yfirbragði, þegar þeir ganga í gegnum miklar þjáningar og erfiða reynslu, þá opnar það augu hinna vantrúuðu fyrir Jesú og fagnaðarboðskap hans.


Það er til sönn og kraftmikil saga, sem fjallar nákvæmlega um þetta - og gerðist í lífi Esther Ahn Kim árið 1939, þegar Kórea var hernumin af Japönum. Esther var kristin, ung kona og dóttir vellauðugs iðnjöfurs í Kóreu. Hún hélt ásamt Elder Park, sem var meþódisti, andlegur leiðtogi og kennari við kristinn skóla í Norður-Kóreu, í ferðalag frá Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu, til Tókýó í Japan. Ferðin var farin til þess að kunngera japönskum yfirvöldum um grimmdarverk Japana í garð kristins fólks í Kóreu - og til að vara leiðtoga Japans við yfirvofandi dómi Guðs. Þau voru tilbúin til þess að láta lífið fyrir það að trufla þjóðþing Japana með þessum hætti, en þess í stað voru þau handtekin og varpað í fangelsi. Hugrökk framganga og vitnisburður Esther Ahn Kim bar með sér skínandi birtu fagnaðarerindisins inn í líf og kringumstæður fólksins. Japönksu kvenfangaverðirnir gengu fram af mikilli hörku og miskunnarleysi. Þeir börðu, pyntuðu og sveltu fanga sína.


Nótt eina var fangvörðurinn Kane á vakt. Hún stóð fyrir framan klefa 1, þar sem Esther Ahn var og starði grimmdarlega á hana í langa stund. Að lokum tuldraði hún: "Undarlegt!" Hún gekk að klefum 3 og 5 og virti fangana fyrir sér. Hún snéri síðan aftur að klefa Estherar og endurtók: "Þetta er virkilega undarlegt!" Þá sagði Esther: "Hvað er svona undarlegt?" Fangavörðurinn Kane sagði: "Andlit fólksins, ekki bara innan fangelsisins, heldur utan þess líka, bera með sér ótta og kvíða og fólkið virðist taugastrekkt - jafnvel andlit barnanna eru illkvittnisleg. En þess klefi er allt öðru vísi." Esther spurði hvað hún ætti við og Kane svaraði: "Ég held að það sé vegna þess að mér finnst andlit þeirra sem eru í þessum klefa svo friðsamleg. Andlit þitt og þeirra sem eru í klefum 3 og 5 eru öll svo friðsæl og vingjarnleg." Í þessum klefum var eingöngu kristið fólk.


Esther bað Kane að útskýra þetta betur fyrir sér, með hvaða hætti andlit þeirra væru frábrugðin. Þá sagði Kane: "Það virðist eins og þið séuð með andlit engla. Og ég get ekki skilið það. Ég hef hvergi nokkurs staðar í veröldinni séð svona friðsæl andlit." Esther spurði þá Kane hvort hún vildi vita hvers vegna þau væru með svona friðsæl andlit, á stað sem þessum - og Kane játti því. Þá notaði Esther tækifærið og sagði henni frá Jesú og fangavörðurinn Kane snérist til trúar á lifandi Guð, Jesú Krist hinn upprisna.


Þessi saga minnir okkur á svipaða frásögn sem er að finna í Biblíunni, nánar tiltekið í 16. kafla Postulasögunnar, þegar Páll og Sílas sátu í fangelsi í Filippí og sungu og báðu upphátt um miðnætti. Skyndilega kom landskjálfti svo mikill að fangelsisdyrnar opnuðust og hlekkirnir losnuðu af öllum föngunum, en enginn þeirra flýði. Fangavörðurinn var viss um að allir væru flúnir og ætlaði að taka líf sitt þegar Páll kallaði: „Ger þú sjálfum þér ekkert mein, við erum hér allir!“Fangavörðurinn bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi. Síðan leiddi hann þá út og sagði: „Herrar mínir, hvað á ég að gera til að verða hólpinn?“ En þeir sögðu: „Trú þú á Drottin Jesú og þú munt verða hólpinn og heimili þitt.“ Og þeir fluttu honum orð Drottins og öllum á heimili hans. Samstundis tók fangavörðurinn þá með sér um nóttina, laugaði meiðsli þeirra eftir höggin og var hann þegar skírður og allt hans fólk.

Post 16: 25-33


YouTube We have this treasure in jars of clay.




0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page