top of page

Forystuhæfileikar II

Hér kemur pistill númer tvö um forystuhlutverkið og andlega leiðtogaþjálfun. Vonandi hafið þið gagn og gaman af, og megi þetta verða ykkur til blessunar og uppörvunar! Efni þetta er unnið upp úr leiðtogabók eftir John C. Maxwell, en hann er þekktur leiðtogi og fyrirlesari út um allan heim. Hann rekur sitt eigið ráðgjafafyrirtæki og hefur starfað á þessu sviði í yfir 40 ár. Einnig veitti hann sem ungur maður forstöðu kirkju í mörg ár og er óumdeilanlega einn sá fremsti í heiminum undanfarna áratugi á sviði leiðtogaþjálfunar. Þá hefur hann skrifað margar metsölubækur um leiðtogaþjálfun. Hann hefur þjónustað til margra forseta Bandaríkjanna m.a. Bill Clinton o.fl. Einnig hefur hann haldið ræður á vegum Sameinuðu þjóðanna og í heimi viðskipta og stjórnmála út um allan heim, og haft þannig áhrif á líf milljóna manna og kvenna. Vonandi kveikja þessir pistlar eldmóð í hjarta þínu til að stíga fram til forystu á því sviði sem Guð hefur kallað þig til – og þar sem hæfileikar þínir og talentur nýtast best, til að gera gott samfélag betra!

Allir trúaðir geta aukið árangur sinn hvað forystu varðar

Eitt mikilvægasta atriði sem John C. Maxwell kennir er lögmál þaksins – loksins!  Sem segir; “Leiðtogahæfileikar ákvarða pesónulegan árangur og ákvarða hversu mikil áhrif viðkomandi einstaklingur hefur. Þetta er lykilatriði þegar við erum að vinna með öðrum. Vegur þyngra en auðlindir, peningar, hæfileikar og gáfnafar - forystuhæfileikar og kunnátta í þeim efnum gerir gæfumuninn þegar kemur að því að hafa áhrif.  Þar af leiðandi er markmið mitt með þessari leiðtogabiblíu að auðvelda þér að hækka „þakið þitt“ varðandi árangur og áhrif.  Ég vil að þú náir markmiðum þínum í Kristi og aukir við getu þína og hæfileika!

Til þess að líkjast Kristi meira, þarftu að hugsa og framkvæma meira eins og leiðtogi.  Þú þarft að verða einstaklingur með áhrif!

Guð hefur þegar kallað þig til forystu!

Ef þú ert fylgismaður Krists, þá hefurðu gert þér ljóst að þú ert kallaður til þess að hafa áhrif á aðra, breiða út fagnaðarerindið og gefa fólki hlutdeild í sönnum auði og hagsæld.

Jesús sagði þetta á þennan hátt;  “Þér eruð salt jarðar… “Þér eruð ljós heimsins. Borg sem á fjalli stendur… “Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.”  Matt 5: 13-16

Það skiptir ekki máli hvort þú ert forstjóri , framkvæmdastjóri eða dagmamma, ef þú kallar sjálfan þig kristinn, þá ertu kallaður/kölluð til að hafa áhrif á aðra.  Þess vegna er það svo mikilvægt fyrir þig að efla, og auka við forystuhæfileika þína  -  hvort heldur sem þú ert foreldri, veitir kirkju forstöðu, stjórnarformaður stórfyrirtækis, eða mögulegur leiðtogi fyrir næstu kynslóð – komandi kynslóðir.

Vandamálið er að ef þú líkist flestu fólki, þá vaknarðu ekki upp á morgnana, lítur í spegil og segir; “Nú, þarna er guðlegur, árangursríkur leiðtogi, hafi ég ekki séð hann fyrr!“.

Í dag trúir meirihluti fólks því að það geti ekki haft jákvæð áhrif á heiminn sem það lifir í.  Jafnvel meirihluti presta er á sömu skoðun.  Árið 1997 tilkynntu samtökin Barna Research Group að 95% presta í Ameríku sögðust ekki trúa því að þeir hefðu andlega gjöf, náðargjöf forystuhæfileika.  Þeir sögðust heldur ekki upplifa að þeir væru nægilega undirbúnir fyrir forystuhlutverkið.

Sannleikurinn er sá að það eru fáir sem eru gæddir náttúrulegu hæfileikum til að gegna forystu og leiða aðra.  En allir hafa möguleika til þess. Ég trúi að þú getir orðið betri leiðtogi, óháð aldri, kyni, hjúskaparstöðu eða starfsgrein.

Félagsfræðingar segja að jafnvel ómannblendnir og einhverfir einstaklingar hafi áhrif á 10 þúsund manns að meðaltali á heilli ævi. Hugsaðu þér það!  Einhver sem reynir ekki einu sinni að hafa áhrif á aðra mun engu að síður hafa áhrif á marga. Hugsaðu þér hvað ein manneskja, hann eða hún, gæti haft mikil áhrif ef hún/hann hefði einlægan vilja og ásetning til að leiða aðra – eins og Jesús gefur okkur fyrirmæli um.  Hvaða hæfileika og getu hefur Guð gefið þér til að hafa áhrif ?

„Ég vil að þú sjáir sjálfan þig fyrir þér sem leiðtoga.  Ég vil að þú lærir af bestu leiðtogum allra tíma, þeim mönnum og konum sem eru í Biblíunni. Það skiptir engu máli hversu veikur eða sterkur þú ert á þessu sviði – hvort þú ert á stigi 4 eða 9. Ég vil að þú bætir þig og náir þínum hæsta árangri fyrir dýrð Guðs.“ Þinn vinur John C. Maxwell.

Forysta – leiðtogahlutverkið snýst ekki einvörðungu um það að vinna einhverjar hetjudáðir á veraldlegum vettvangi, heldur fyrst og fremst til þess að hafa stjórn á sínu eigin lífi og vera góður ráðsmaður þess tíma og þeirra auðlinda sem Guð hefur látið okkur í té.

Þetta á við um allt sköpunarverk Guðs, jörðina, umhverfi okkar, lífríkið - og hæfileika okkar og getu.  Það er mikilvægt að við sem einstaklingar leggjum eitthvað til samfélagsins til að hafa áhrif til góðs og vinna sameiginlega að því að skapa jákvæðar breytingar.

Þetta snýst ekki um það hver er bestur og hver sé framsæknastur!  Þetta snýst um það að allir leggi sig fram um að hafa jákvæð áhrif á umhverfi okkar og samfélag.

Við erum ekki sett fram til þess að drottna yfir öðru fólki né stjórna því.  Ef um yfirgang og stjórnsemi er að ræða - stjórnun með afli eða þvingun,  þá verður það hindrun og kemur í veg fyrir að raunverulegir hæfileikar og geta fólks fá notið sín.  Einstaklingurinn verður þá ófullnægður og minna skapandi.  Sé stjórnun hins vegar framkvæmd í hógværð, auðmýkt og lítillæti, en þó með myndugleika, virkjast fólk betur til góðra verka.

Leadership – Að hafa áhrif!  Að geta breytt um stefnu, jafnvel kúvent og fengið aðra til fylgis við sig við að kalla fram jákvæða breytingu.

Management – Stjórnun eftir fastmótuðu kerfi – ákveðinni stefnu er framfylgt.  Stjórnandinn stýrir fólki til ákveðinna verka í samræmi við fyrirfram mótaða stefnu eða kerfi fyrirtækis, hreyfingar eða stofnunnar.

Munurinn liggur fyrst og fremst í því að forysta er að hafa áhrif á meðan stjórnun einblínir á e.h. kerfi, framkvæmd eða áætlun.

Besta aðferðin til að athuga hvort e.h. einstaklingur geti verið í forystu í stað þess að geta einvörðungu stjórnað er að biðja viðkomandi um að skapa eða búa til jákvæðar breytingar.  Stjórnandinn getur framfylgt ákveðinni stefnu en ekki breytt henni.  Til að beina fólki inn á nýjar brautir þurfum við að hafa áhrif! Frumskilyrði er að við séum fær um að aga okkur sjálf og stjórna eigin lífi til þess að geta haft áhrif á aðra. Taka persónulega ábyrgð og stíga fram í kærleika til góðra verka. Mannvirðing er að allar skoðanir eru virtar og aldrei sé gengið á sjálfsvirðingu fólks í samskiptum við það.

Drottinn fer fyrir þér – verður að hafa trú og treysta Drottni ef þú ákveður að hafa hann í broddi fylkingar.

“Foringjar veittu forystu í Ísrael, og fólkið kom sjálfviljuglega,…”  Dóm 5:2

Fólkið fer sjálfviljugt á eftir forystusauðnum, á sínum eigin forsendum!

Í Ísrael hinu forna, þegar fólk Guðs hafði góðan konung bjó þjóðin við velmegun og velgengni, en þegar fólkið hafði vondan konung, þá hallaði undan fæti.  Fólk bjó við fátækt, skort, valdníðslu og kúgun.  Þess vegna kennir Ritningin að án vitrana, opinberana, hugsjóna, mun mannkynið fjara út – glatast.

“Þar sem engar vitranir eru, kemst fólkið á glapstigu…”  OK 29:18

“Sá sem aflar sér hygginda, elskar líf sitt.  Sá sem varðveitir skynsemi mun gæfu hljóta.”   OK 19:18

Skilgreining Péturs postula á sjálfum sér og hinum öldungunum í söfnuðum Litlu Asíu er gott dæmi um kristna leiðtogahæfileika, sem sýnir að yfirvald er að grunni til byggt á þjónustu en ekki krafti eða mætti.

Helstu persónueinkenni góðs leiðtoga eru:

  1. Þeir gera sér grein fyrir því að þeir vilja sjá um og annast hjörð Guðs og bera umhyggju fyrir henni en ekki bara sjálfum sér.

  2. Þeir leiðast af ákafa og kappi til að þjóna en ekki af skyldurækni.

  3. Þeir láta sig varða um það hvað þeir geta gefið en ekki hvað þeir sjálfir fá.

  4. Þeir leiða með fordæmi, ekki nauðung eða þvingun (afli/mætti).

Öll erum við leiðandi eða fyrirmyndir fyrir aðra á einn eða annan hátt.  Hvert sem hlutverk okkar er, þá ætti forysta okkar að vera á þessari línu – bera þessi einkenni.

Jesús er okkar fyrirmynd  í þessum efnum – hann er sá sem fer með æðsta valdið – yfirhirðirinn, foringinn.

“En Jesús kallaði þá til sín og mælti: “Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjarnir láta menn kenna á valdi sínu.  Eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.  Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar, eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til launargjalds fyrir marga.”  Matt 20: 25-28

0 comments

Comments


bottom of page