top of page

Forystuhæfileikar og andleg leiðtogaþjálfun

Í tveimur pistlum sem munu birtast hér á heimasíðu kirkjunnar næstu tvær vikur, ætla ég að taka fyrir efni er varðar forystuhæfileika og andlega leiðtogþjálfun. Efni þetta er unnið upp úr leiðtogabók eftir John C. Maxwell, en hann er þekktur leiðtogi og fyrirlesari út um allan heim. Hann rekur sitt eigið ráðgjafafyrirtæki og hefur starfað á þessu sviði í yfir 40 ár. Einnig veitti hann sem ungur maður forstöðu kirkju í mörg ár og er óumdeilanlega einn sá fremsti í heiminum undanfarna áratugi á sviði leiðtogaþjálfunar. Þá hefur hann skrifað margar metsölubækur um leiðtogaþjálfun. Hann hefur þjónustað til margra forseta Bandaríkjanna m.a. Bill Clinton o.fl. Einnig hefur hann haldið ræður á vegum Sameinuðu þjóðanna og í heimi viðskipta og stjórnmála út um allan heim, og haft þannig áhrif á líf milljóna manna og kvenna. Vonandi kveikja þessir pistlar eldmóð í hjarta þínu til að stíga fram til forystu á því sviði sem Guð hefur kallað þig til – og þar sem hæfileikar þínir og talentur nýtast best, til að gera gott samfélag betra!

Leiðtogahlutverkið er fyrir alla!  Hvernig er hægt að halda slíku fram?  Vegna þess að allir þeir sem viðurkenna Krist eru kallaðir til að hafa áhrif á aðra. Allir!  Forystuhlutverkið er ekki aðeins fyrir útvalda.  

Hvert fara flestir til þess að nema forystuhæfileika? Hvert sækir flest fólk þekkingu sína og fræðslu varðandi leiðtogaþjálfun?

Svarið við þessari spurningu í dag er að fólk leitar á mörgum mismunandi stöðum. Sumir sækja í heim stjórnmálanna. Aðrir sækja fyrirmyndir í afþreyingar -og skemmtanaiðnaðinn og enn aðrir líta á svið viðskiptanna.  Flestir virðast sækja fyrirmyndir sínar til árangursríkra framkvæmdastjóra og forstjóra, stjórnunarráðgjafa og kennimanna/fræðinga með doktorsgráðu, til þess að efla með sér forystuhæfileikana.

En sannleikurinn er sá, að besta uppsprettan til þjálfunar og kennslu á sviði forystu, stjórnunar og leiðtogaþjálfunar í dag, er sú sama og verið hefur til þúsunda ára.  Ef þú vilt efla með þér forystuhæfileika, læra að stjórna og leiða, skaltu lesa hagnýtustu og bestu bók allra tíma hvað þetta varðar – BIBLÍUNA!

Þú hefur á milli handanna verkfæri sem býr yfir þeim leyndardómi, getu og hæfileika til að umbreyta lífi þínu og stefnu varðandi þroska og vöxt sem andlegur leiðtogi.  Það er Biblían sem dregur fram og útskýrir grunnatriði forystuhæfileika, enda þau samofin orðinu af þeim sem fann upp og innleiddi forystuna – Guði sjálfum.  Hver gæti mögulega kennt okkur meira en nokkur annar um þessi málefni en Drottinn sjálfur?

ÁÞREIFANLEGASTA ÞÖRF KIRKJUNNAR Í DAG ER FORYSTA!

Stærsta vandamálið sem kirkjan stendur frami fyrir í dag er tómarúm leiðtoga, þ.e.a.s.  skortur á forystu sem jókst á tuttugustu öldinni. Kirkjusérfræðingurinn og tölfræðingurinn George Barna fullyrðir: „Forysta er ennþá ein augljósasta þörf kirkjunnar. Fólk er oft viljugt til að fylgja hugsjón Guðs, en of oft hefur það ekki haft nein kynni af hugsjón né sannri forystu.“ Fyrir fáeinum árum setti Barna fram skynsamlega ályktun byggða á rannsóknum sínum: „Eftir fimmtán ára rannsóknir á heiminum í kringum mig, hef ég komist að ákveðnum niðurstöðum varðandi kristna kirkju í Ameríku. Megin niðurstaðan er sú að Ameríska kirkjan er að deyja vegna skorts á sterkri forystu. Á þessum tímum fádæmalausra tækifæra og mýmörgu uppsprettum, er kirkjan í raun og veru að missa áhrif sín. Aðal ástæðan er skortur á leiðtogum! Ekkert er eins mikilvægt og sterk forysta.“

Kristur skildi kirkjuna eftir á jörðinni til að vinna verk sem hefði eilíf áhrif. Ef forysta staðarkirkjunnar er ekki sterk og hún (kirkjan) vel leidd, mun brúður Krists þjást, og hún mun ekki vera fær um að uppfylla áætlun sína fyrir næstu kynslóð.

SJÁLFUR GUÐ HEFUR KALLAÐ OKKUR TIL FORYSTU!

Guð er hinn fullkomni leiðtogi og hefur úrslita áhrif. Og hann kallar alla kristna menn og konur til forystu, til þess að leiða og stjórna.  Guð hefði getað skipulagt sköpunarverk sitt með hverjum þeim hætti sem hann sjálfur hefið kosið.  Hann valdi að skapa manninn sem andlega veru með getu og hæfni til að snúa sér til Drottins og fylgja honum, þó svo hann sé ekki tilneyddur til þess – maðurinn hefur þennan frjálsa vilja. Þegar mannkynið féll í synd hefði Guð hæglega getað stöðvað eða blásið af áætlun sína um yfirbót og endurreisn, sem reiknaði ekki með syndugri manneskju í þeirri áætlun.

En hann hefur kallað okkur eitt og sérhvert til þess að taka þátt í áætlun sinni með því að leiða aðra, á sama tíma og við fylgjum Honum.  Hann gerir okkur þetta ljóst strax í upphafi – 1 Mós 1: 26

“Ég trúi því af öllu hjarta að allt stendur og fellur með forystuhæfileikum. Með því á ég við að það, meira en allt annað, ákvarðar hvort forysta samtaka eða hreyfingar nær árangri eða mistekst.  Við getum einatt og iðulega séð hvaða áhrif forystuhlutverkið hefur í Biblíunni.“ (JCM)

Í Ísrael hinu forna, þegar fólk Guðs hafði góðan konung, bjó þjóðin við velmegun, en þegar fólkið hafði vondan konung þá hallaði undan fæti. Fólk bjó við fátækt, skort, valdníðslu og kúgun.  Þess vegna kennir Ritningin að án vitrana eða hugsjónar mun mannkynið fjara út – deyja út.  

“Þar sem engar vitranir eru, kemst fólkið á glapstigu,…..”OK. 29: 18

Áhersla á forystuhlutverkið, eða öllu heldur ákall um forystu, er áberandi og viðvarandi viðfangsefni Biblíunnar. Er Guð ákvað að byggja upp þjóð eftir sinni fyrirmynd gerði hann ekki tilkall til fjölda einstaklinga, heldur eins manns – Abrahams.  Þegar hann vildi leiða fólk sitt út úr Egyptalandi leiddi hann þau ekki sem hóp.  Hann reisti upp leiðtoga til þess – Móse.  Þegar sá tími kom að fólkið hélt inn í fyrirheitna landið, þá fylgdi það einum manni – Jósúa.  Í hvert skipti sem Guð ákveður að gera eitthvað stórkostlegt kallar hann leiðtoga til að stíga fram.  Enn þann dag í dag kallar hann einstaklinga sem leiðtoga til að stíga fram til góðra verka.

KRISTNIR MISSKILJA OFT Á TÍÐUM SANNA EIGINLEIKA FORYSTUHÆFNI!

En einhvers staðar á leiðinni hafa fjölmargir kristnir orðið sannfærðir um það að ef þeir fylgdu Kristi, þá yrðu þeir vandræðalegir og heimóttarlegir, þögulir og til baka.  Vandamálið er það að þeir hafa ruglað saman merkingu hógværðar við veikleika (confused meekness with weekness).  Sem kristnir einstaklingar uppgötvum við sjálf okkar eigin veikleika, en það gerist þegar styrkur Guðs vex í okkur. 2 Kor 12:9

“…; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.”  Það sem Guð þráir er að við séum með auðmjúkt hjarta, en sýnum styrk í veikleika okkar.  Eins og Páll segir; “Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum , til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.” (sama vers).  “Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.”  2 Kor 12:10

Fylgismaður Guðs ætti að vera í forystu og leiða annað fólk.  Það er annað og meira en að vera bara “yfirmaður” – “boss” eða hljóta stöðuveitingu sem yfirmaður og stjórnandi.  Og svo sannarlega þýðir það ekki að maður eigi að vera stjórnsamur, sýna yfirgang og ýtni.  Jesús kennir okkur að þetta snýst um þjónustu – við eigum að þjóna hvort öðru.

“En Jesús kallaði þá til sín og mælti: “Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjarnir láta menn kenna á valdi sínu.  En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.  Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar, eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.”  Matt 20:25-28

Þegar um er að ræða hæfileika til forystu, með vísan til Róm 12:8 – “Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn” .., þarftu að eigna þér þá hæfileika að vera umhyggjusamur og heilsteyptur líkt og Kristur var – og er - og nýta þér hæfileikana til að beita áhrifum þínum til góðs.  Forysta er; “að hafa áhrif” –  hvorki meira né minna.  Ef þú ert salt og ljós eins og Jesús mælti fyrir um að við ættum að vera, þá verður þú að byrja á því að hlýða kalli Guðs til forystu.

0 comments

Comments


bottom of page