top of page

Frelsi fylgir ábyrgð

„Þér voruð, bræður, kallaðir til frelsis. Notið aðeins ekki frelsið til færis fyrir holdið, heldur þjónið hver öðrum í kærleika. Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig." En ef þér bítist og etið hver annan upp, þá gætið þess, að þér tortímist ekki hver fyrir öðrum.” Gal 5.13-15


Páll gerir hér greinarmun á milli þess frelsis sem við höfum til að syndga og frelsisins sem við höfum til þess að þjóna.


Frelsið, eða „leyfi“ okkar til þess að syndga (sem er í fullu samræmi við þann frjálsa vilja sem Guð gaf okkur) er í raun ekkert frelsi, vegna þess að það gerir okkur að þrælum hins illa. Við verðum undirokuð af Satan, öðru fólki, eða okkar eigin synduga eðli. Þvert á móti á kristið fólk ekki að vera þjáð af syndinni eða hneppt í þrældóm hennar, af því að það hefur frelsi til að gera það sem rétt er - og vegsama Guð með því að þjóna öðru fólki í kærleika.

Þegar við þjónum ekki í einlægni og kærleika, þá getum við auðveldlega orðið gagnrýnin á hvert annað. Við hættum að sjá það góða í fólki og sjáum aðeins mistök þess og annmarka. Það mun síðan leiða til þess að eining kristinna manna hverfur og veldur sundrungu innan samfélagsins, sem við lifum og hrærumst í. Baktölum við aðra? Horfum við eingöngu á ófullkomleikann í fari annarra, í stað þess að horfa til styrkleika þeirra? Minnumst orða Jesú þegar hann segir: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.” (Matt 22.39).


Þegar við finnum að við verðum gagnrýnin á einhvern, eða aðfinnslusöm, þá er gott ráð að hugleiða styrkleikana og þær jákvæðu hliðar sem viðkomandi býr yfir – jafnvel gera lista yfir það. Ef það það eru einhver vandamál sem þarf að ræða og leysa úr, þá er farsælla að mæta aðilanum í kærleika frekar en að kvarta við aðra um það, slúðra eða baktala.

Stundum gerist það að við viljum breyta stefnunni í lífi okkar, stefnu sem við höldum kannski að sé góð, en svo kemur annað á daginn. Þá er gott að eiga góða að sem eru tilbúnir til að vara mann við og ráða manni heilt, því ekki eru allar breytingar til góðs.

Prestur, sem hafði verið mjög farsæll í starfi og trúfastur, taldi sig hafa fengið opinberun um að frelsið í Kristi þýddi að hann gæti gert nánast það sem hann vildi. Góður vinur hans, sem einnig var prestur, aðvaraði viðkomandi og sagði að slíkar gjörðir sem hann hugðist framkvæma myndu koma í bakið á honum. En viðkomandi vildi hvorki hlusta á aðvaranir né ráð vinar síns og hélt uppteknum hætti, sem endaði með því að hann hröklaðist úr þjónustu. Hann missti marks! Hann gerði í raun það sem Páll er að vara okkur við í fyrrgreindum texta: hann notaði frelsi sitt til þess að syndga.


Innihald þessa texta um frelsi okkar er tekið úr lögmálinu í GT. Hinir kristnu eru lausir undan kröfu lögmálsins – það er vegna þess að Jesús Kristur uppfyllti það með því að lifa fullkomnu lífi og greiða síðan gjaldið fyrir syndir okkar með dauða sínum á krossinum. Frelsisverkið meðtökum við aðeins fyrir náð hans, í gegnum trúna, en ekki með góðum verkum.

Hins vegar fellir frelsið ekki ábyrgð okkar úr gildi. Sem dæmi, þá hefur fólk frelsi til þess að hafa mismunandi langanir og þrár, en ef við ákveðum að við þurfum ekki að fara eftir lögunum, þá munum við fljótt uppgötva það að við þurfum að gera reikningsskil gjörða okkar, og það janvel fyrir dómstólum - fyrir það hvernig við fórum með frelsið.


Við þurfum sífellt að skoða okkur sjálf til þess að vera fullviss um að sjálfhverft og eigingjarnt viðhorf hafi ekki læðst inn í hugsanir okkar. Tregða til að vera heiðarleg, andstaða við að axla ábyrgð og sterk löngun til þess að gera allt eftir okkar eigin höfði, gætu verið ákveðnar vísbendingar um það að við séum ekki á réttri leið.


Ef við treystum, og trúum á frelsissverk Jesú, þá höfum við verið leyst undan oki syndarinnar, en við þurfum að nýta það frelsi til þess að hlýða honum og þjóna hvert öðru í kærleika. Páll orðar þetta svo í Rómverjabréfinu 14.7: „Því að enginn af oss lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér” – það þýðir að við erum ábyrg bæði gagnvart Guði og hvert öðru.

0 comments

Comentarios


bottom of page