top of page

Fyrirgefning – það er boðskapur dagsins!


Góðar fréttir fyrir þá sem eru með sundurkramið hjarta – fyrirgefning Guðs umlykur okkur og hylur. Guðfræðingurinn Karl Bart vissi allt um fyrirgefninguna. Hann sagði eitt sinn: “Við lifum eingöngu vegna fyrirgefningarinnar.” Hann er þarna að enturtaka boðskap Páls postula. Páll vissi hversu erfitt það var að fást við fyrirgefninguna. Hann segir á einum stað að hann þekki lögmálið betur en nokkur annar og hann hafi erfiðað við að fylgja því, því hann trúði í fyrstu að það væri leiðin til frelsunar. En í stað þess að það frelsaði hann og sefaði sársaukafullt hjartað, þá sakfelldi það hann. Og Páll var ekki einn um þá skoðun. Margir hafa upplifað svipaða hluti. Marteinn Lúther átti líka í erfiðleikum með þetta þar til hann uppgötvaði kærleiksríkan Guð. Okkur hefur verið fyrirgefið. Við eru réttlætt, ekki í okkar eigin mætti, heldur þess sem greiddi gjald syndarinnar fyrir okkur.

“Ég ónýti ekki náð Guðs. Ef réttlæting fæst fyrir lögmál, þá hefur Kristur dáið til einskis. Gal 2: 21.

Fyrirgefning! Náum við að fullu utan um þetta orð. Í frásögninni af Mörtu og Maríu sjáum við að María hafði að öllum líkindum náð utan um fyrirgefninguna – og það var þess vegna sem hún hellti olíunni á kærleiksríkan hátt yfir Jesú. Hún vildi blessa hann og sýna þakklæti í verki. Það er þess vegna sem hún ákvað að smyrja fætur Jesús með ilmsmyrslum og þvo fætur hans með hári sínu. Slík var dýptin á þakklæti hennar fyrir gjöf fyrirgefningarinnar sem Jesús veitti henni. Hefur þú fengið að upplifa kraft fyrirgefningarinnar? Mark Twain sagði að við værum eins og máninn – hvert og eitt okkar hefði sínar dökku hliðar sem ekki sjást dags daglega og enginn gæti séð. En Guð þekkir myrkrið sem er innra með okkur. Guð þekkir allar hugsanir okkar, gjörðir, óvingjarnleg orð og athafnir. Samt tekur Guð okkur eins og við erum – með okkar dimmu hliðar – vegna þess sem Jesús gerði á krossinum.

Öllum okkar syndum, afbrotum, athöfnum og hugsunum hefur Guð sökkt í eitt skipti fyrir öll í haf fyrirgefningarinnar. Við komum til Guðs í þörf fyrir fyrirgefningu, fyrirgefningu vegna þess sem við höfum gert – og biðjum líka um styrk til að fyrirgefa öðrum. Allt of margir lifa í anda eða sýn Gamla testamenntisins. Fyrir þeim er Guð dæmandi guð, Guð hefndar og reiði. Það er eins og engin þörf hafi verið fyrir Jesú. Svo virðist sem að þeir sem starfa í anda GT þarfnist ekki fyrirgefningar hans – þarfnist ekki náðar hans.

Okkur hefur verið fyrirgefið, segir Jesús. Þér er fyrirgefið og þú ert frjáls! Í stað þess að nöfnin okkar séu afmáð úr Lífsins bók, þá hefur Jesús ritað þau með óafmáanlegu - varanlegu bleki. Þér hefur verið fyrirgefið og veitt nýtt upphaf í lífinu. Iðrun merkir að breyta um hugarfar, breytt viðhorf og hegðun – breytt stefna í lífinu. Það að vera viss um að skjöldurinn sé hreinn (að hafa hreinan skjöld) kallar á nýja byrjun og það er það sem fyrirgefning Guðs gerir fyrir okkur. Hún veitir okkur nýja, ferska byrjun!

Nýtt upphaf, með þá vitneskju að okkur hefur verið fyrirgefið, veitir okkur kraft til að fyrirgefa öðrum. Ef við könnumst við að vera syndarar og við erum réttlætt fyrir náð Jesú Krists, hvernig í ósköpunum getum við þá neitað öðrum um fyrirgefningu? Það er ómögulegt!

Georg Whitefield var einn af mestu evangelistum sem nokkurn tíma hafa verið uppi. Hann var sannur guðsmaður, en samt sem áður hvíslaði hann þessi frægu orð þegar hann sá dæmdan mann fara í gálgann: “Þarna mundi ég fara, ef ekki væri fyrir náð Guðs.” Georg þekkti sannleika Karls Bart: “Við lifum öll vegna fyrirgefningarinnar.” Vegna þess að fyrirgefningin  leyfir okkur að meðtaka þann kærleika sem Guð ber til okkar.

Gæti þetta hafa verið það sem varð Júdasi einna helst að falli, vanhæfni hans til að sjá sig sem syndara og meðtaka fyrirgefningu Guðs? Því að án þeirrar tilfinningu að mér sé fyrirgefið, býður lífið upp á litla gleði og vonlitla framtíð. Þér hefur verið fyrirgefið segir Jesús – “Ég dó á krossinum fyrir þig!”

Sagan segir af mjög bitrum manni sem var veikur á líkama, sál og anda. Hann lá á spítala í slæmu ásigkomulagi, ekki vegna þess að hann væri með einhvern smitsjúkdóm eða vírus, heldur vegna þess að reiði og skömm hafði eitrað huga hans og anda. Dag einn, þegar hann var sem lengst niðri, sagði hann við hjúkrunarkonuna: “Getur þú ekki gefið mér eitthvað til að enda þetta allt?” Honum kom mikið á óvart þegar hún svaraði því til að hún skyldi gera það. Hún sótti Gídeonbiblíu og byrjaði að lesa. “Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.” Þegar hún hafði lokið lestrinum sagði hún: “Þarna hefurðu það, ef þú trúir þessu, þá mun þetta binda enda á vandamál þín. Guð elskar þig, fyrirgefur þér og tekur við þér sem einu af sínum börnum.”

Svona einfalt svar dugar ekki öllum. En þetta virkaði í tilfelli þessa manns. Hann gerði sér grein fyrir því, eftir mikla sjálfsrannsókn, að hjúkrunarkonan hafði rétt fyrir sér. Og að nokkrum tíma liðnum gerðist hann trúaður og tók við kærleika Guðs og lækningu inn í líf sitt. Það er ákveðin leið til Guðs. Jesús ruddi þá braut! Við erum kannski ekki María eða ”konan í bænum”, en það eru syndir sem hvíla á hjarta okkar. Það eru sár og ör sem við höfum bakað öðrum. Það er myrkur innra með hverju okkar, sem enginn veit um nema Guð. En sá hinn sami, okkar kærleiksríki Guð sér allt, fyrirgefur allt og kallar okkur til sín.

Mundu, að sá sem fyrirgefur lítið, verður lítið fyrirgefið. En þeim sem er fyrirgefið mikið, elskar af öllu hjarta. Mætti það eiga við um okkur öll!  Í Jesú nafni. Amen!

0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page