top of page

Guð fer ekki í manngreinarálit!

Margir eru þeirrar skoðunar að Biblían, sem kristið fólk lítur á sem Guðs orð, sé hlaðin fordómum og mismunun. Þegar grant er skoðað er það mikill misskilningur. Í upphafi, þegar Guð skapaði heiminn og manninn og konuna í sinni mynd, þá setti hann strax tóninn varðandi algjöran jöfnuð kynjanna. Maðurinn er ekki skapaður meira í Guðs mynd heldur en konan. Frá upphafi setur Guð bæði konuna og manninn á sama stall í sköpun sinni – það er algjört jafnræði milli þeirra (1 Mós 1:26-27). Það er hvorki verið að upphefja eitt kynið né verðfella annað á kostnað hins.

Það kemur víðar fram í Gamla testamenntinu að Guð fer ekki í manngreinarálit og er hægt að nefna sem dæmi 5. Mós 10:17. Ef við lítum svo á Nýja testamenntið þá sjáum við sama rauða þráðinn þar. Bæði Pétur og Páll, postular – lærisveinar Krists gerðu sér grein fyrir því að Guð fer ekki í manngreinarálit (Post 10:34 & Róm 2:11).

Þó svo að kristnir menn séu af mismunandi þjóðfélagsstigum, þá erum við öll jöfn frammi fyrir Guði óháð kynferði, þjóðerni, útliti og uppruna. Bréf Páls til Fílemons fjallar einmitt um þetta atriði; Fílemon, húsbóndi Onesimusar – hann var þræll Fílemons – þeir voru bræður í Kristi. Guð gerir það ljóst að fagnaðarerindið um Jesú Krist er fyrir alla. Við eigum ekki að láta neinar hindranir koma í veg fyrir það, hvorki tungumál, landamæri, fjárhagslega stöðu né menntastig, halda okkur frá því að segja öðrum frá Kristi.

Í bréfi Páls til kirkjunnar í Efesus kemur skýrt fram í kafla 2 (versum 14-22) að Kristur hefur rutt öllum þeim hindrunum úr vegi sem fólk hafði byggt upp á milli sín. Í Gamla testamenntinu aðgreindi Guð mannkynið aðeins í tvo flokka, Gyðinga og Heiðingja. Ásetningur Guðs var að Gyðingar yrðu konunglegt prestafélag sem mundi þjóna til Heiðingjanna. Þess í stað fylltust Gyðingarnir stolti og forhertu hjarta sitt og fyrirlitu þar með alla Heiðingja. Þetta undirstrikar fall mannkynsins og þátt syndarinnar í lífi okkar mannfólksins. Jesús batt enda á þetta er hann braut niður fjandskap og óvináttu þessara flokka.

Vegna þess að þessar hindranir hafa verið fjarlægðar, þá getum við átt raunverulega einingu með fólki sem er ekkert líkt okkur og á ekkert sameiginlegt með okkur. Þetta er sönn sáttagjörð! Vegna dauða Krists erum við öll eitt (v 14), fjandskapur gagnvart hvort öðru hefur verið deyddur (v 16), við höfum öll aðgang að Föðurnum í gegnum Heilagan anda (v 18), við erum ekki lengur ókunnungir – hvorki gestir né útlendingar í augum Guðs (v 19) og við tilheyrum öll heilögu musteri Krists sem er sjálfur hyrningarsteinninn (v 20 & 21).

Það eru margir þættir sem geta aðgreint okkur frá öðrum kristnum; aldur, útlit, vitsmunir, pólitískar skoðanir, fjárhagsleg staða, kynþáttur og guðfræðileg nálgun. Eins besta aðferðin til að kæfa niður kærleika Krists, er að sýna bara því fólki vinsemd sem okkur líkar við. Sem betur fer hefur Kristur rutt þessum hindrunum úr vegi og sameinað alla trúaða í eina fjölskyldu. Kross hans ætti að vera miðpunktur okkar og sameiningartákn. Heilagur andi hjálpar okkur til að líta framhjá þessum hindrunum og horfa með gleði til þeirrar einingar sem við erum kölluð til.

Kristur dó til þess að afnema ákveðið fyrirkomulag og kerfisbundna mismunun sem lögmál Gyðinganna fól í sér. Því næst tók hann þessa tvo hópa (Gyðinga/Heiðingja) sem voru í andstöðu við hvorn annan og gerði þá hluta af sér. „Einn nýr maður“ merkir að Kristur bjó til einn stakan úr þeim báðum – bjó til eina heild. Þannig sameinar hann alla trúaða í sér einum.

Gyðingarnir stóðu næri Guð má segja, vegna þess að þeir þekktu hann þegar í gegnum Ritninguna og lofsungu hann með sínum trúarlegu athöfnum og siðum. Heiðingjarnir voru mun fjarlægari vegna þess að þeir vissu mjög lítið, ef þá nokkuð, um Guð. Af þvi að hvorugur hópurinn gat frelsast fyrir góð verk – dyggðir, þekkingu eða heilindi (einlægni), þá þörfnuðust báðir þess að heyra að frelsunin væri möguleg í boði í gegnum Jesú Krist.

Bæði Gyðingar og Heiðingjar eru núna frjálsir hvað það varðar að koma til Guðs í gengum Jesú Krist. Þú hefur líka verið færður nær Honum með friðþægingar –og frelsisverki Krists.

Kirkjubyggingar eru stundum kallaðar hús Guðs í daglegu tali. Heimili Guðs er í raun ekki bygging, heldur fólkið sjálft, það er kirkjan. Hann lifir í okkur og sýnir sig í gegnum okkur – heimi sem horfir á og fylgist með. Fólk getur séð að Guð er kærleikur og að Kristur er Drottinn þegar við lifum í einingu hvort með öðru, og í samræmi við það sem Guð segir í orði sínu. Við erum þegnar konungsríkis Guðs og heimamenn hans.

En hvað merkir það að vera bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina (v 20)?  Það merkir að kirkjan er ekki byggð á nútíma hugmyndum eða pólitískum rétttrúnaði, heldur á arfleifð sem okkur er gefin af hinum fyrstu postulum og spámönnum hinnar Kristnu kirkju.

Þessu hlutverki má kirkjan aldrei gleyma, né gefa eftir gagnvart fjölhyggju nútímans. Kristur gerir kröfu um að vera sannleikurinn (Jóh 14:6) og Heilagur andi, sá sem leiðbeinir kirkjunni, er andi sannleikans (Jóh 16:13) Satan er hins vegar andstæða alls þessa, hann er faðir lyginnar (Jóh 8:44). Sem fylgjendur Krists verðum við að ganga í lið með sannleikanum – gangast við honum. Það merkir að orð okkar skuli vera heiðarleg og að við sýnum ráðvendni í verkum okkar, þvi saman á þetta að endurspegla heiðarleika og heilindi Krists.

Að halda sig við sannleikann er ekki alltaf auðvelt, þægilegt eða ánægjulegt, en það er nauðsynlegt ef kirkjan á að geta framvæmt verk Guðs í heiminum.

Sumt kristið fólk óttast að einver mistök hjá þeim geti eyðilagt vitnisburð þeirra um Drottinn. Þeir sjá eigin veikleika og halda jafnvel að þeir sem eru ekki kristnir búi yfir sterkari persónuleika en þeir sjálfir. Þetta gæti vel átt við núna í okkar samfélagi þar sem kristni og kirkja á undir högg að sækja vegna andstöðu hópa sem aðhyllast fjölhyggju og frjálsræði, og vilja hindra framgang kristni í landinu.

En hvernig förum við að því að vaxa í Kristi?

Svarið við þessu er að Kristur hefur mótað okkur sem líkama – sett saman hóp sjálfstæðra einstaklinga er hefur sameiginlegan tilgang og kærleika hvor til annars – og til Drottins.

Ef einn hrasar mun restin af hópnum reisa viðkomandi upp og hjálpa honum eða henni að ganga aftur í takt með Guði.

Sem hluti af líkama Krists erum við að endurspegla ákveðnar hliðar af persónuleika hans og framkvæma okkar sérstaka hluverk í þeirri áætlun sem hann hefur fyrirbúið þessum heimi, til blessunar og heilla fyrir mannkyn allt.  

0 comments

Comentários


bottom of page