top of page

Hugleiðing um andstreymi í upphafi árs 2016


Nú er rétt mánuður liðinn af nýju ári 2016 og jólin eru svo til ný afstaðin, þar sem við minntumst fæðingu Jesú Krists og að hann kom í heiminn og varð hold – varð maður. Hann steig niður til okkar og íklæddist skykkju mennskunnar, til þess að vera hjá okkur, til þess að bera kennsl á okkur og að við  mættum kynnast honum. Hann kom til að gefa okkur sameiginlegan grundvöll til að byggja líf okkar á, en grunnur þessi er Nýja testamenntið. Boðskapurinn um lífið sjálft – boðskapur hjálpræðisins.

Það er alveg magnað hvernig Jesús varð einn af okkur. Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla þá sem voru undirokaðir af djöflinum. Hann kom til að segja okkur að hann væri ekki fjarlægur guð, ekki guð aðskilnaðar og sundurþykkis. Nei, hann kom til að tengja okkur við sig, tengja okkur við hvert annað í kærleika hans – brúa gjána sem var á milli syndugs mannkyns og Guðs, frá því syndafallið átti sér stað.

Á lífsgöngu sinni hér á jörð stóð Jesús frammi fyrir mörgum áskorunum. Hann gekk í gegnum alla þá hluti sem þú og ég höfum reynt. Hann upplifði, gleði, hamingju og gerði mörg kraftaverk. En hann upplifði líka örvæntingu, hugarvíl, mikla þjáningu, ofsóknir, pyntingar – og að lokum dauða. En hann gafst aldrei upp! Fyrir það uppskar hann eins og hann sáði. Fullkominn sigur á krossinum og eilíft líf á himnum, við hægri hönd Guðs föðurins. Þaðan sem hann mun koma, til þess að dæma eftirlifendur og dauða, þaðan sem hann mun koma til að sækja þá sem á hann trúðu, okkur sem á hann trúum og þá sem munu trúa á hann í framtíðinni.

Við sem manneskjur stöndum líka frammi fyrir mörgum áskorunum í þessu lífi. Flest viljum við eiga sem þægilegast líf og hafa sem minnst fyrir hlutunum. Við reynum allt hvað við getum til að finna lífshamingjuna og búa okkur öryggi. Margir byrja nýtt ár með því að heita á sjálfa/an sig um að verða betri manneskja, lifa heilsusamlegra lífi en á því umliðna, neyta hollari fæðu og tileinka sér betri lífsvenju. Allt er þetta gott og gilt! En hvernig maður eða kona vilt þú vera? Hvernig viðhorf hefur þú gagnvart mótlæti, stóru sem smáu og neikvæðri reynslu af lífinu?

Ég er einn af þeim sem kveinkar sér stundum undan íslenskri veðráttu og læt rok og rigningu fara óskaplega í taugarnar á mér, einkum og sér í lagi þegar ég fer út að hjóla. Fyrir tveimur árum fjárfesti ég í góðu hjóli til að hreyfa  mig úti og bæta heilsu mína. Vegna gigtar og stoðkerfisvandamála á ég erfitt með að hlaupa. Stundum finnst mér að suð-vesturhorn landsins hljóti að vera undir yfirráðum hins illa og hann njóti þess að skaprauna mér með því að ausa á mig rigningu og roki. Ég er oftar en ekki í mótvindi þegar ég hjóla í kringum Akrafjallið, eða þegar ég fer frá Akranesi til Reykjavíkur.

Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar þegar ég fór á fjölskylduviku í júní í fyrra, austur á Ejólfsstaði á Völlum, á Héraði. Þar heldur Íslenska Kristskirkjan fjölskylduviku á hverju sumri og hefur gert til fjölda ára. Þessar vikur hafa verið ómetanlegar og í minningu margra hin besta skemmtun og góð mannrækt. Að sjálfsögðu tók ég hjólið með mér þar sem ég ætlaði að njóta þess að hjóla í logningu sem oft er á þessum slóðum.

Einn daginn var hið ákjósanlegasta veður. Það var logn, skýjað og léttur úði. Ég klæddi mig í gallan, fór í hjólaskó fúsleikans og brunaði í átt að Egilsstöðum. Á miðri leið fór ég að hugsa hversu dýrlegt það værið að hjóla hér í logninu, í stað þess að vera í rokinu á Kjalarnesinu. Það sem kom mér hins vegar á óvart, var að það var dálítill mótvindur þar sem ég streðaði áfram og fylgdist vel með hraða hjólsins á forláta kílómetra mæli, sem var áfastur stýrinu. Ég vildi jú sýna hvað í mér bjó og ná góðum meðalhraða í túrnum. Var að keppa við tímann og sjálfan mig. Já, einmitt, það reyndist sem sagt vera mótvindur. Kom mér á óvart! Jæja, ég fæ vindinn í bakið þegar ég fer til baka hugsaði ég, og get þá bætt hraðann enn frekar.

Ég fór upp fyrir Fellabæ og sneri þar við. Eins einkennilegt og það nú var, þá var alltaf þessi vindur í fangið á mér. Ég fór að býsnast yfir þessu með sjálfum mér er ég var kominn að Egilsstöðum í bakaleiðinni, þar sem ég var viss um að nú fengi ég vindinn í bakið, sem ég hafði í fangið á leiðinni úteftir, frá Eyjólfsstöðum. Það gekk nú aldeilis ekki eftir og varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Hafði ég á tilfinningunni að “skrattinn væri að skemta ömmu sinni” á minn kostnað. Hann hefði elt mig alla leið frá Kjalarnesinu.

En það var þá sem ég gerði allt í einu merkilega uppgötvun. Það sem ég hugsaði þarna, sem gerist kannski ekki nógu oft eins og þessi frásaga ber með sér, var að eftir því sem ég hjólaði hraðar, þeim mun meiri vind fékk ég í fangið. Þó svo að það væri logn, þá fékk ég meiri mótbyr eftir því sem ég fór hraðar – en það var jú það sem ég vildi. Fara hraðar og hraðar! Gerði ég mér ljóst að þarna var ég að glíma við ákveðið náttúrulögmál.

Ég held, að eftir því sem við lifum hraðar, lifum hærra og reynum sífellt að auka við lífshamingju okkar, og bæta öryggi okkar og vellíðan - jafnvel ná örlítið meiri árangri, þá getum við átt von á því að mótbyrinn verði meiri og fallið hærra, þegar og ef eitthvað dynur yfir. Eftir því sem við tökum meiri áhættu í lífinu, úr þeim mun hærri söðli er að detta. Ég velti því fyrir mér hvort einfaldleikinn sé ekki bestur? Hvort það sé ekki mikilvægara að fara sér hægar og njóta betur lífsins með fjölskyldu og vinum? Með því að fara sér hægar, læra að njóta lífsins og þakka fyrir það sem maður hefur, kemst hugsanlega betra jafnvægi á í lífinu.

Ég hef því einsett mér á nýju ári að hlusta meira, læra meira, njóta meiri samvista með vinum og fjölskyldu. Ég hef líka hugsað mér að njóta þess meira að hjóla. Ekki vera sífellt að keppast við að bæta tímann. Hjóla frekar hægar og njóta þess að hreyfa mig, þó svo að það sé vindur og rigning,- og láta það ekki fara svona í taugarnar á mér. Ef veðrið er gott, þá er það bara bónus.

Þessi smávægilega glíma mín við íslenska veðráttu er þó hjómið eitt í samanburði við þau verkefni og þær stóru áskoranir sem ég nefndi í upphafi þessarar hugleiðingar. Áskoranir eins og þær sem Jesús þurfti að undirgangast. En þegar öllu er á botninn hvolft, þá er rétt viðhorf okkar til þeirra erfiðleika og áskorana sem við mætum í lífinu, grundvallaratriði. Jesús hafði rétt viðhorf til lífsins. Hann mætti öllum með náð, kærleika og miskunn - og lifði einföldu og fábrotnu lífi. Hann er okkar fyrirmynd hvað varðar nægjusemi og þakklæti. Fetum í hans fótspor og tileinkum okkur gildi hans, sem birtast hvað best í fagnaðarerindinu. Boðskapi lífsins! Þá mun okkur farnast vel og smávægilegir hlutir eins og íslensk rigning og norðan vindur munu ekki raska ró okkar.0 comments

Comments


bottom of page