top of page

Hvar er huggun að finna á erfiðum tímum?

Jesús hét lærisveinum sínum því að Heilagur andi mundi minna þá á allt það sem hann hefði kennt þeim. Þetta fyrirheit tryggir lögmæti, eða öllu heldur gildi Nýja testamenntisins. Lærisveinarnir voru sjónarvottar að lífi Jesú Krists. Við getum verið þess fullviss að guðspjöllin eru nákvæmur vitnisburður og lýsing á því sem Jesús, sagði, gerði og kenndi (1.Kor 2: 10-14). Þegar hann kallaði lærisveinana til fylgis við sig þá fjarlægði hann ekki persónuleg einkenni þeirra né sýn þeirra á lífið. Hann byggði ofan á styrkleika þeirra. Þannig vinnur Heilagur andi í okkur líka. Hann hjálpar okkur til að muna allt það sem Jesús sagði, kenndi og gerði. Þegar við rannsökum Biblíuna þá getum við treyst honum til þess að opinbera fyrir okkur sannleikann og “gróðursetja” hann í huga okkar. Hann fullvissar okkur um Guðs vilja og minnir okkur á það þegar við villumst af vegi – þegar við reikum frá honum.

Fyrir tvö þúsund árum gekk Jesús hér á jörðinni og sagði við lærisveina sína: „Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig.“ Þetta er Heilagur andi! Jesús sagðist fara aftur til himna og þegar hann væri kominn þangað, þá kæmi hann aftur til jarðarinnar sem andi – andinn heilagi, hjálparinn. 

 „Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, 17anda sannleikans. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa. 20Á þeim degi munuð þér skilja að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður.

26En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. 27Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. 28Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. 

Jesús Kristur birtist okkur í annarri mynd. Svo að hann geti verið í okkur og við í honum. Hann kallaði heilagan anda „huggarann“ – „hjálparann“. Eitt af hlutverkum HA er að hugga okkur og veita okkur styrk. Þegar við tökum við Jesú í hjarta okkar þá tökum við á okkur ákveðna skuldbindingu. Mig langar að kynnast þér betur! Ég er ekki að tala um trú. Þú gætir verið Kaþólikki, Mótmælandi, Gyðingur eða eitthvað annað. Ég er að tala um persónulegt samband. Jesús kemur anda sínum fyrir í okkur. Við finnum það ekki alltaf og á öllum tímum, en hann veitir okkur styrk til að takast á við erfiðleikana sem við mætum á lífsleiðinni. Hann hjálpar okkur út úr ógöngum! . Heilagur andi kemur inn í líf okkar, ekki til að gera okkur að trúarofstækisfólki, ekki til að hræða okkur eða gera okkur að einhverskonar furðufuglum. Heldur til að hugga okkur og hjálpa, og gera okkur að þeirri persónu sem að Guð vill að við séum.  Hann vill lifa í þér. Hann vill vera vinur þinn. Hann vill eiga persónulegt samband við þig og vera þinn innri styrkur á erfiðum tímum.

Róm 15:13 „Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Þegar Guð kemur með anda sinn inn í líf þitt, verður yfirbragð þitt geislandi og von skín af andliti þínu. Og það er það sem þú þarfnast – eitthvað til að vona á. Prestar sinna sálgæslu og sjá mikið af sársauka í sínu starfi. Sálfræðingar verða vitni að miklum tilfinningalegum sársauka – læknar líkamlegum sársauka, bankamenn og ráðgjafar á sviði peiningamála sjá mikið af fjárhagslegum sársauka – en prestar sjá þetta allt! Oft á tíðum er engin von til staðar.

Biblían segir að þegar Jesús Kristur komi inn í líf okkar, þá eigum við von. Opinberunarbókin 21: 4 segir; „Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ Það mun ekki vera nein þjáning í eilífðinni – á himnum, enginn harmur, engin reiði, engin gremja, ekki fleiri fórnarlömb. Ég hlakka til þess dags. 

Ég er ekki að hræða þig til þess að þú takir ákvörðun um að trúa. Ég er einungis að bjóða þér að biðja Jesús að koma inn í líf þitt, ekki vegna þess að þú munir hugsanlega deyja í kvöld, sem ég vona að þú gerir ekki, heldur vegna þess að þú verður að lifa morgundaginn. Frá deginum í dag, til þess dags sem þú munt deyja – hvenær sem það nú verður, þá áttu eftir að standa frammi fyrir miklum vandamálum í lífi þínu. 

Ef þú heldur að svo sé ekki, þá ertu að blekkja sjálfa/n þig. Þú munt ganga í gegnum mikla erfiðleika í lífinu eins og allir aðrir. Spuringin er, hvað munt þú hafa til að halda í þegar það gerist? Hvað er það sem mun mótívera þig – hvetja þig til að standa upp og halda áfram þegar líf þitt virðist vera að taka kollsteypu t.d. vegna andláts ástvinar,harmleiks eða mikilla erfiðleika.  Það er furðulegt í hvað sumt fólk leitar eftir huggun. Sumt fólk neytir lyfja. Aðrir leita í áfengi. Enn aðrir leita eftir skyndikynnum. Sumt fólk eyðir öllum sínum tíma í að horfa á sjónvarp og einhverjir lesa fantasíuskáldsögur. Margir sofa bara og sofa. Allir eru að reyna að forðast sársaukann í lífi sínu – eða öllu heldur komast af með hann. Hvað er það sem mun gefa þér von?

Endanleg niðurstaða á verki HA í okkar lífi er djúpur og varanlegur friður - friður sem er æðri öllum mannlegum skilningi. Ólíkt veraldlegum friði, sem er venjulega skilgreindur sem fjarvera átaka og ágreinings, þá er friður Guðs örugg trygging í öllum kringumstæðum. Með friði Guðs þá þurfum við hvorki að óttast nútíð né framtíð. Ef líf þitt er fullt af streitu eða álagi, leyfðu þá HA að fylla þig af friði Jesú Krists (Fil 4: 6-7).

Ótti, efi óvissa og margvísleg önnur öfl bærast innra með okkur. Friður Guðs fyllir hjarta okkar og huga - allt okkar líf, til að standa gegn þessum óvinveittu kröftum og aftra þeim frá því að hafa áhrif á líf okkar. Okkur býðst huggun í stað baráttu og átaka. Jesús segir að hann muni láta okkur í té þann frið – ef við viljum þiggja hann og meðtaka. Hvað er það sem mun gefa þér von?

0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page