Hugleiðing út frá sálmi 102.
Margir halda að þegar Guð huggar okkur þá muni vandamál okkar hverfa. En ef það væri alltaf þannig, þá mundi fólk snúa sér að Guði einungis í þeim tilgangi að lina sársauka, en ekki vegna ástar okkar á honum eða ástríðu. Við verðum að átta okkur á því, að það að vera huggaður getur einnig þýtt að við öðlumst meiri styrk, uppörvun, hvatningu og von, til að takast á við erfiðleika lífsins og amstur hversdagsins.
Því meira sem við þjáumst, því meiri huggun fáum við hjá Guði. Ef þér finnst þú vera að bugast, leyfðu Guði að hugga þig, veita þér styrk, uppörvun og von. Mundu að við hverja prófraun sem þú stenst, hverja þá þolraun sem þú gengur í gegnum, mun það hjálpa þér að hugga annað fólk sem þjáist af samskonar erfiðleikum og þú. Ritningin talar um að vera “albúinn og hæfur til sérhvers góðs verks”.
“Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni. Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín. Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig. Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur. Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns. Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein. Sálm 102: 1-6
Sálmaskáldinu leið svo illa að hann missti matarlystina. Þegar við stöndum frammi fyrir sjúkdómum og erum á barmi örvæntingar, líða dagarnir hjá eins og í blindni. Við sinnum jafnvel ekki grunnþörfum okkar. Á þessum stundum er aðeins Guð okkar huggun og styrkur. Jafnvel þegar við erum of veik til að berjast og veita mótspyrnu, þá getum við treyst á hann. Það er oft þegar við gerum okkur grein fyrir veikleikum okkar, að þá verður styrkur Guðs tiltækur. Postulinn Páll segir: “Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika." Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér. Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.”
“Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum. Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.” Sálm 102: 7-8
Þessir fuglar eru myndlíkingar einsemdar og einangrunar. Á vissum tímum getum við þurft að vera ein. Við þörfnumst næðis og nauðsynlegt er að eiga þögula stund með sjálfum sér af og til. Við þær aðstæður getur einveran verið okkur til huggunar og þægðar. En við verðum að fara varlega í að hafna þeim sem eru að reyna að ná til okkar. Við skulum varast að að hafna hjálp og neita fólki um samræður, því það að þjást í þögninni er hvorki kristilegt, né sérstaklega heilsusamlegt. Þess í stað eigum við að taka vingjarnlega við stuðningi og hjálp frá fjölskyldu og vinum.
Við reiðum okkur oft á eigin kunnáttu og hæfileika þegar lífið reynist auðvelt, en leitum aðeins til Guðs þegar harðnar á dalnum og við erum ósjálfbjarga. En um leið og við gerum okkur grein fyrri máttleysi okkar án hans, og að við þörfnumst stöðugt hjálpar hans á lífsgöngunni, þá treystum við honum betur og betur og reiðum okkur æ oftar á hann.
Drottinn blessi þig og varðveiti, og mætti hann vera styrkur þinn og hæli í gegnum þær þolraunir sem þú ert að glíma við á þessu augnabliki. “Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.”Fil 4:3
Commentaires