top of page

Ný sköpun

Updated: Oct 4, 2018

“Því að ég veit, að þér hafið heyrt um hann og hafið verið um hann fræddir eins og sannleikurinn er í Jesú: Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.”  Efes 4: 21-24

Hér kemur Páll með áminningu og hvatningu til þeirra sem hafa tekið við Kristi Jesú, að fólk ætti að sjá mun á þeim sem eru kristnir og þeim sem eru það ekki – vegna þess hvernig lífi þeir lifa. Páll hvatti Efesusmenn til að gefa eftir sitt gamla, synduga líferni, þar sem þeir væru nú fylgjendur Krists.

Kristið líferni er ferli sem á að leiða til ákveðins þroska. Þó svo að við höfum fengið nýtt eðli, þá hugsum við ekki sjálfkrafa góðar hugsanir og sýnum ekki alltaf rétta hegðun eða breytni þegar við verðum nýir einstaklingar í Kristi. En - ef við höldum áfram að hlusta á Guð, þá tökum við stöðugt framförum og sjáum jákvæðar breytingar gerast í lífi okkar. Þegar þú lítur yfir síðasta ár, sérðu þá vöxt eða framþróun í hugsun, viðhorfi eða breytni?

Þó svo að breytingin geti verið hæg, þá er og verður hún staðreynd eftir því sem við treystum Guði betur til þess að breyta okkur. Gamla lífið, sem við lifðum áður en við eignuðumst trú á Jesú Krist, heyrir algjörlega fortíðinni til. Við eigum að skilja það eftir líkt og gamlan fatnað sem við erum hætt að nota. 

Þegar við þiggjum gjöf náðarinnar og frelsisverksins úr hendi Krists, þá er það bæði gert í eitt skipti, sem og dagleg skuldbinding. Það að játast Kristi er augnabliks ákvörðun – en ævilöng skuldbinding. Páll minnir okkur hér á að við eigum ekki að láta stjórnast af hvatvísi, né eigin löngunum og þrám. Hann hvetur okkur jafnframt til að taka upp okkar nýja eðli (líkjast Kristi), beina lífi okkar í aðra og nýja átt – og eignast nýtt hugarfar sem Heilagur andi gefur okkur. Náð Guðs er ný á hverjum degi!

Guð blessi þig og varðveiti!


0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page